23 December 2009

Jóalablogg :)

Hef verið afskaplega jóla dugleg í gær og í dag og bíð því núna bara eftir jólunum :)
Fer að vinna á morgun til klukkan að verða hálf fimm og nokkru eftir það fæ ég strákana mína, þá Georg Rúnar og Helga :) Ég hlakka mikið til :)
Margrétin mín Alda verður í Kaupmannahöfn hjá Jónu systur og hennar fjölskyldu og munum við sakna hennar mikið mikið !

Annað kvöld er okkur (sem betur fer) boðið í skötu veislu til Magga Hinriks og Sonju, eins og í fyrra.....Mmmmmm hvað ég hlakka mikið til :)

Við fjölskyldan ætlum að njóta jólanna með samveru hvers annars, borða góðan mat, drekka malt og appelsín, spila og syngja (vonandi) saman og með gleði í hjarta og hugsa fallega eins og alltaf til hennar Sifjar okkar :)

Við eigum svo góða fjölskyldu og vini á Flateyri sem hugsa fallega um leiðið hennar Sifjar minnar og met ég það mikils :) Takk fyrir :) En ég hlakka líka til að fara vestur um áramótin og geta aðeins farið að leiði elsku Sifjar minnar !

Kæru vinir sem enn ramba hingað inn, óska ég gleðilegra jóla og óska ykkur frið í hjarta !

Bestu kveðjur :)

20 November 2009

Föstudagurinn 20. nóvember !

Þessi föstudagur byrjaði nú miklu verr en föstudagurinn 13. !!!
Ég fór sæl og glöð í vinnuna mína, sem er bara rétt yfir götuna !
Gekk bara svona í rólegheitum....já var alls ekki að flýta mér, rek tánna í gangstéttarbrún og flýg á hausinn!!! Eða reyndar lendi á báðum HNJÁNUM og renn aðeins.....jahh mér fannst það reyndar vera eitt tvö hundrað metrar....sem hafa sennilega bara verið 2 cm eða svo!!!
Lendi með andlitið utan í grindverkinu og lek svo niður!!!
Sjáið þið þetta ekki alveg fyrir ykkur???? Svona eins og í teiknimynd!!!

Já semsagt ég smurði gangstéttina með sjálfri mér og argaði heilan helling!
Sem betur fer var þetta á þeim tíma sem flestir foreldrar voru búnir að koma með börnin sín á leikskólann....engu síður leit ég til beggja hliða til að athuga hvort nokkur hafi séð þetta......held ekki....allavegana þeir sem voru enn inn í bílunum sínum litu í aðra átt og svo sá ég nokkrar gardínur í nærliggjandi húsum blakta smá.....en held samt að engin hafi séð þetta ! Er afskaplega glöð með það ;)

Ég ligg þarna í smá stund og spyr sjálfa mig hví í veröldinni ég hafi ekki borið hendurnar fyrir mig en fékk engin svör hjá sjálfri mér !!!

Brölti á fætur og haltraði inn á leikskólann, settist þar niður og fór að væla yfir þessu!!!
Samstarfskonurnar voru nú frekar fúlar að hafa ekki verið í glugganum þegar þetta gerðist....ég er nú að vona að það sé vegna þess að þá hefðu þær getað stokkið út og hjálpað mér, frekar en að þær hefðu viljað sjá eitthvað skondið!!!!

Ég er afskaplega heppin að það sést ekki á andlitinu á mér enda má ég nú ekki við því....er víst nógu ljót samt EN er með ansi ljót sár á báðum hnjám og bólgu á öðru þeirra!!!

Þetta var semsagt föstudagurinn 20. nóvember !

19 November 2009

Spákonan og Kristinn Hallsson ;)

Afmælisveisla Péturs tókst mjög vel :)
Það komu á milli 30 og 40 manns og höfðum við gaman af :)

Spákonan byrjaði að vinna aftur sl. mánudag en er samt mjög slæm í fætinum (hnénu) enn....og ekki batnar það við vinnuna :(
Fór í dag til bæklunar læknis og sagði hann fátt annað en að ég ætti að gera æfingar með fæturna og koma svo eftir mánuð í sneiðmyndatöku til Akureyrar :(
Æ ég var að vona að fá einhverja bót á þessu....já helst í gær!!!
En svona er þetta nú bara !

Eins og ég sagði um daginn ætla ég að reyna að fara í jóla gírinn fyrir þessi jól :)
Við sóttum allt jóladót út í bílskúr í dag og eru kassarnir komnir inn á stofu gólf....það er þó byrjunin :)
Ég þreif eldhúsgluggana áðan og mun örugglega byrja um helgina að henda upp jólaseríum :)

Spákonan er með matar uppskrift vikunnar í fréttablaðinu Feyki og er þar mynd af henni......með allar sínar undirhökur og hann elskulegur eiginmaður minn, segir alltaf þegar hann sér mynd af undirhökunum og mér að við Kristinn Hallsson séum mjög lík !!!....vildi bara að ég hefði röddina hans Kristins líka ;)

Á morgun fer ég í fótsnyrtingu og miiikið hlakka ég til.....hef ekki nema einu sinni farið í svoleiðis síðan ég flutti frá Flateyri, þar sem hún elskulega Evelyn mín sá alltaf um tærnar á mér....þó hún hafi nú ekki verið hrifin af frekjunni í mér að heimta alltaf fótsnyrtingu hjá henni :)

Sunnudaginn eftir viku ætlum við hjón á útgáfutónleika Fjallabræðra og hlakka ég mikið til :)
Þeir eru haldnir í Háskólabíói :)

Lifið heil :)

13 November 2009

Föstudagurinn 13. nóvember.

Spákonan á Kambinum er ekki búin að sitja auðum höndum s.l. tvo daga :)
Er búin að baka hveitikökur, kleinur og nokkrar tertur.....og búin að hafa gaman af :)
Tilefnið er að elskulegur eiginmaður er 45 ára í dag :)

Já það er föstudagurinn 13. nóvember og Pétur Björnsson er 45 ára :)
Við eigum von á einhverjum gestum í dag og hlakka ég til :)
Veit fátt skemmtilegra en þegar margt fólk er í kringum mig :)

Ég ætla að njóta föstudagsins 13. og vona að þið gerið það líka :)

10 November 2009

Í réttum ramma ;)

Spákonan hangir enn heima og reynir að fá bót á hnjánum sínum....þó ekki hnésbót múhahahaha :)

Við mæðgur fórum á leiksýningu hér á Króknum, s.l. laugardag :) En leikfélagið hér var að sýna barnaleikritið Rúi og Stúi og var það mjög skemmtilegt :)

S.l. sunnudag var Feðradagurinn og þá fengum við Bergljót Ásta okkur göngutúr í blómabúðina og keyptum rauða rós sem BÁP færði pabba sínum í vinnuna, í tilefni dagsins og varð faðirinn afskaplega glaður :)

Í gær birtust óvænt hingað til okkar, þeir feðgar Þórir og Ingvar og varð mikil gleði að fá þá til okkar og áttum við góða stund með þeim og að sjálfsögðu gistu þeir hjá okkur :)
Þeir eru í söluferð um landið, en Ingvar og Vigdís kona hans eru með heildverslun með myndarömmum :)
Fyrir þá sem ekki vita þá er Þórir maður hennar Júllu Baddýjar og Ingvar tengdafaðir hennar :)
Og fyrir þá sem vilja kíkja á heimasíðu Í réttum ramma ehf þá er hún hér :
www.irettumramma.is

Í dag er rigning og fínt veður og sérstaklega gott og hollt að fá sér smá göngutúr :)

Eigið góðan dag :)

04 November 2009

Miðvikudagurinn 4. nóvember !

Hef lítið annað að gera þessa dagana, en að hanga í tölvunni á milli þess sem ég þvæ þvott, elda og legg mig !!!
Var sem sagt skipað af lækninum að vera heima þessa vikuna og þá næstu og reyna að fá hnéð á mér gott ! Hef verið að drepast í því í nokkra mánuði og alltaf hefur það verið að versna :(
Ég fer í sjúkraþjálfun þrisvar í viku og er að vona að það sé að gera mér gott :)
Þann 16. nóv (minnir mig) á ég að mæta hjá bæklunar lækni sem kemur hingað á Krókinn :)
Þá er bara að vona að hann geti sagt mér hvað það er sem er að hrjá mig (hnéð) :)

Annars er nú bara allt gott að frétta af okkur hérna :)
Það er langt síðan við höfum bara verið svona þrjú í heimili og er það frekar tómlegt !
Ég hef alltaf verið frekar fyrir margmenni en hitt !
Myndi sjálfsagt fara að eignast fleiri börn ef aldurinn væri ekki orðinn svona hár hjá mér....jahh bara svo við yrðum fleiri hér á bæ ;)

Ég hef ákveðið að breyta til og ætla núna að láta mig hlakka til jólanna og já, bara hlakka til að fá desember mánuðinn :) En það hef ég nú ekki gert í nokkur ár !
En hér með hlakka ég mikið til :)

Þetta var nú bara svona smá blogg :)
Eigið góðan dag og sérstakar kveðjur til Dúnnu og Didda :)

02 November 2009

Langt síðan......

Ákvað að blogga smá, þar sem hugur minn er svolítið (mikið heima þessar stundirnar :)
Og enn heldur er hugur minn fyrir vestan, þar sem þau fallegu hjón hringdu í mig á meðan þau voru á göngu á Flateyrinni :) En það voru auðvitað Gulla og Eiríkur Finnur :) Það var gott að heyra aðeins í þeim áðan :)

Mikið hvað ég sakna þeirra og já allra fyrir vestan !
Stundum langar mig að flytja aftur heim og stundum ekki !
Við erum að leita að öðru húsnæði hér, þar sem við missum þetta um áramótin !
Hér er bara ekkert að fá (til leigu) Höfum leitað mjög mjög mikið en ekkert hefur gengið....enn!
Pétur minn segir alltaf "þetta reddast" svo ég ætla nú bara að vona það :)

Strákarnir mínir stunda sjóinn af kappi og Margrétin mín komin til Danmerkur!
Reyndar er Helgi minn fyrir vestan núna þessa dagana :)
Margrét Alda fór í íþróttalýðháskóla á Jótlandi og líkar henni vel :) Skólinn er í átta mánuði, þannig að það verður langt þar til við hittum hana! En ég er svo glöð að henni lýður vel þar sem hún er :)

Bergljót Ásta mín fékk svínaflensuna (segir læknirinn) og var hún með háan hita þar til hún fékk lyfið sem gefið er við þeirri flensu og nú er hún orðin góð og fór í skólann í morgun :) Var búin að vera í 10 daga heima !
Það var bekkjarkvöld hjá henni áðan þar sem foreldrar máttu koma með og fór ég að sjálfsögðu með henni en Pétur minn komst ekki, þar sem hann er að vinna fram eftir nóttu !

Hef þetta ekki lengra núna en kannski styttist tíminn hjá mér á milli blogga hér eftir :)
Sennilegast þykir mér nú að allir séu búnir að gefast upp á að kíkja hingað inn, sem er ekki skrýtið :) En mér finnst gott að geta skrifað þetta þó enginn lesi :)
Hafið það sem allra best :)

30 August 2009

Afmæli!!!

Í gær þann 29. ágúst áttum við Pétur 11 ára brúðkaupsafmæli :)
Til hamingju við :)

Í dag 30. ágúst eru 23 ár síðan Sif og Helgi komu í heiminn :)
Í dag mun ég kveikja á kerti fyrir hana Sifina mína og í dag óska ég honum Helga mínum innilega til hamingju með afmælið :)
Vona að þú eigir góðan dag elsku Helgi og mundu að ég elska þig ótrúlega mikið!

Vona að þið öll eigið góðar stundir :)

Bestu kveðjur
Gógó.

31 July 2009

Meira blogg....

Það er víst komið að verslunnarm.helginni :)
Þegar ég var ung og vitlaus þá fór ég yfirleitt ekkert um þessa helgi....var bara heima...sennilega hefur mamma ekki tekið það í mál að ég færi neitt!!!
Eina útihátíðin sem ég man eftir að hafa farið á, á yngri árum var skátamót á Hreðarvatni :)

Nema eina verslm.helgi fórum við Greta Sigga á puttanum suður til Reykjavíkur :) Þá vorum við nú sennilega um 20 ára og öllum fannst skrítið að við ætluðum suður þessa helgi, þar sem allir færu ÚR bænum!!! En puttaferðalagið okkar var mjög skemmtilegt og höfðum við gaman að :)

Núna um þessa helgi er Landsmót UMFÍ hér á Króknum og er bærinn að fyllast af fólki :)
Tjaldvagnar, fellihýsi og hvað þetta nú allt heitir rísa upp á Nöfunum og allt um kring :)
Mikið hefði verið gaman ef veðrið hefði verið aðeins betra en það er!!!
Mér finnst alltaf svo gaman þegar gestir koma í bæinn hvort sem það er hér eða heima á Flateyri, að þeir fái gott veður ....því þá minnast þeir staðarins enn betur :)

Pétur minn er á leið heim aftur með stelpurnar okkar og mikið verður nú gott að fá þau aftur...þó það sé gott og nauðsynlegt fyrir alla að fá að vera með sjálfum sér öðru hverju, þá á einveran ekki við mig :)

Á morgun koma þau svo til okkar, Grazyna, Kris og Patrycja og verður það nú skemmtilegt...þau eru alltaf svo hress og kát :)

Jæja ég ætla að halda áfram að hlusta á tónlistina fallegu sem spiluð var við jarðarförina hennar Sifjar minnar og lofa mér að gráta og já hágráta þegar engin heyrir til mín!!!

Eigið góðan dag gott fólk :)

29 July 2009

Eitt og annað :)

Komið þið sæl :)
Langt líður á milli blogga þessa mánuðina!!!
En við höfum það fínt fjölskyldan og ýmislegt búin að gera í sumar :)

Við fórum vestur til Flateyrar um Hvítasunnuhelgina og var það meiri háttar ferð :)
Hittum fullt af "gömlum" flateyringum sem ég hef ekki séð í hundrað ár, eða svo :)
Bergljót Ásta var allan júní mánuð hjá Guggu systur og fílaði það í botn :)

Pétur og Bergljót (og ég með hléum) hertókum eitt herbergið á G-2 hjá vinum okkar Gullu og Eiríki......held þau hafi nú verið ansi fegin er við loks fórum aftur á Krókinn!!!

Pétur minn var með leikjanámskeið á vegum GRETTIS á Flateyri, sem tókst að sjálfsögðu mjög vel enda maðurinn sá besti með börnunum í íþróttum og leik :) Allir voru ánægðir (að ég held) eftir tveggja vikna námskeið :)

Georg minn Rúnar hélt grillveislu á pallinum hjá Gullu og EFG einn laugardaginn, en EFG sá um kokkeríið og mættu fullt af skemmtilegu fólki á pallinn það kvöldið :) Myndir frá því á facebook :)

Georg minn hafði ég ekki séð síðan í mars og var mjög gott að fá að knúsa hann aðeins,nú svo á ég von á að hann kíki eitthvað til okkar á Krókinn áður en hann fer aftur á sjóinn :)

Það er líka langt síðan ég hef séð hann Helga minn, en hann er í fríi núna og á ég von á að hann komi líka til okkar í heimsókn :) Ég sakna þess að hafa ekki strákana mína hjá mér....jahh allavegana öðru hverju!!!

Margrétin mín vinnur alla daga og kvöld og hefur lítið frí fengið enda er hún búin að vera dugleg að borga skóla gjöld og önnur gjöld til skólans sem hún fer í til Danmerkur nk. nóvember!!!

Pétur minn er búinn í sumarfríinu sínu en ég byrja þann 10. ágúst :)

Grazyna, Kris og Patrycja ætla að koma til okkar nk. laugardag og hlakka ég til :) Það hafa komið gestir öðru hverju og gist hjá okkur í sumar :)

Inga Rún mín og Ólafur litli dana prins koma þann 24. ágúst og verða hjá okkur þann 25. og það þykir mér afskaplega mikið vænt um :) Já og Jóna systir kemur með þeim líka, sem er gott en hún hefur aldrei komið til okkar á Krókinn fyrr.

Laufskálaréttir eru seinustu helgina (held ég) í september og þá koma að sjálfsögðu Gulla og Eiríkur til okkar og önnur skemmtileg hjón verða vonandi líka :)

Læt þetta duga í bili en reyni að vera duglegri við bloggið en ég hef verið :)

Lifið heil :)

07 June 2009

Þar kom að því :)

Langt er síðan ég hef bloggað....svo langt að ég var næstum búin að gleyma hvernig ég á að komast inn á bloggið!!!!

Margt hefur svosem gerst frá því seinasta blogg var :)....en ég man nú fæst af því....það hefur með þetta gullfiska minni mitt að gera :)

Í dag er Sjómannadagurinn og á degi sem slíkum er ekki hægt annað en að hugsa heim til Flateyrar.
Á Flateyri er þessi helgi sú allra skemmtilegasta helgi ársins og hefur verið um langt skeið. Mikið um hátíðarhöld og eintóm gleði í að minnsta kosti tvo daga :)
Allir skemmta sér saman, börn sem fullorðnir, sjómenn sem landmenn og allir njóta þess í botn :)
Því miður komumst við hér á Ægisstígnum ekki vestur núna en við höfum okkar fulltrúa á svæðinu :) Já Bergljót okkar Ásta er á eyrinni góðu og býr hjá Guggu systur þessa dagana :)
Við heyrðum í henni í gær og var hún full af gleði:) Hafði farið í siglingu með Varðskipinu í Ægi laaaangt frá Flateyrinni og sá svo Gula Húsið okkar þegar hún var að koma aftur í land :)
Hafði verið á fótboltavellinum og mikið um að vera þar....svo hafði hún farið aftur á völlinn og þá í fótboltaskónum sínum með fótboltan sinn :) Já það er mikið að gera hjá henni fyrir vestan :)

Um seinustu helgi þegar við Pétur fórum á rúntinn með hana, sagði hún "mig langar að flytja aftur í Gula Húsið, þetta er svo lítill og sætur bær"

Já við vorum semsagt fyrir vestan um seinustu helgi, sem var hreint frábær helgi :)
Þar var hljómsveitin ÆFING með endurkomu og á eyrinni voru í mínum huga MILLJÓN manns:) Allt fullt af gömlum og góðum vinum og allir komnir til að skemmta sér en ekki endilega að láta aðra skemmta sér :) Þetta var hreint æði :)
Já svona minningar geymir maður í hjarta sínu um aldur og ævi :)

Í dag langar mig að flytja aftur heim. Heim til fallega fjarðarins, fallegu fjallanna, góðu fjölskyldu minnar og ekki síst til góðra vina minna.
Á morgun langar mig það kannski ekki....en í dag er hugur minn og hjarta fyrir vestan.

Sjómönnum og þeirra fjölskyldum óska ég til hamingju með daginn :)

Lifið heil öll :)

22 April 2009

Þar kom að því.....bloggidíblogg :)

Þá er veturinn næstum í garð genginn og sumarið á næstu grösum :)
Já á morgun er sumardagurinn fyrsti :)
Mikið hvað ég vona að það verði meiri stilla yfir sumrinu en er í höfðinu á mér þessa dagana!!! En í kolli mínum geymi ég ekki gullið....heldur er þar allt á fleygiferð....og allt út af þessum kosningum nk. laugardag!!!
Ég veit hreinlega ekkert hvað ég ætla að kjósa!!!
Í gær (eins og flesta daga) ætlaði ég að kjósa sjálfstæðisflokkinn....í dag skila auðu og hvur veit hvað ég hugsa á morgun!!!!
Mynduð þið kæru lesendur (ef einhverjir eru eftir) geta gefið mér einhverjar hugmyndir um hvað ég á að gera??? Hvaða flokkur hentar???
Það versta samt er,að ég trúi engu né treysti neinu sem allt þetta fólk talar um....það hugsar bara hver um sinn rass!!!
Samt sem áður eru kosningarnar nk. laugardag!!!
HALLELÚJA!!!!!!

Sæluvikan byrjar nk. sunnudag og verður margt um að vera hér :)
FRÁ OKKAR FYRSTU KYNNUM verður frumsýnt sunnudaginn 26. apríl kl 20:00
2. sýning þriðjud. 28. apríl kl 20:00
3. sýning föstud. 1. maí kl 17:00
4. sýning laugard. 2. maí kl 15:00 uppselt!
5. sýning þriðjud. 5. maí kl 20:00
6. sýning miðvikud. 6. maí kl 20:00 uppselt!
7. sýning laugard. 9. maí kl 17:00
8. sýning sunnud. 10. maí kl 20:00
9. sýning þriðjud. 12. maí kl 20:00
Lokasýning miðvikud. 13. maí kl 20:00

Karlakórinn Heimir og Fjallabræður syngja fyrir okkur laugardaginn 2. maí og margt margt fleira....tel náttúrulega aðeins það upp sem á einhvern hátt snertir mig og mína :)

Hvet að sjálfsögðu alla að bregða undir sig betri fætinum og mæta í sæluna til okkar :)

Á MORGUN SUMARDAGINN FYRSTA EIGA ÞAU HEIÐURSHJÓN, TENGDAFORELDRAR MÍNIR....50 ÁRA BRÚÐKAUPS AFMÆLI :)
Vil ég því óska þeim innilega til hamingju með daginn og megi þau lengi lifa :)
Mér þykir afskaplega mikið vænt um ykkur elsku Bergljót og Björn :)

Að lokum vil ég óska ykkur gleðilegs sumars og þakka ykkur fyrir veturinn :)

12 April 2009

Páskar 2009

Já sælllll!!!!
Það er orðið ansi langt síðan ég bloggaði seinast, þarf greinilega fara að taka mig á í bloggheiminum....bæði að skrifa og lesa blogg!!!

Hér gengur lífið fínt og við glöð á Króknum :)

Ég er farin að mæta á allar æfingar hjá leikfélaginu, ekki þó að leika en aðstoða leikstjórann :) Hann heitir Jón Ormar Ormsson og er hinn skemmtilegasti karl :)
Að mæta á leikæfingar er eitt það skemmtilegasta sem ég geri :)
Leikfélagið hér er að verða 120 ára og er þetta afmælissýning sett saman af leikstjóra og öðrum og taka þátt í sýningunni bæði fólk sem hefur leikið í mörg ár og fólk sem er að stíga fyrstu spor sín á sviði :)
Leikritið verður frumsýnt í Sæluvikunni :)

Frúin mætti á blak æfingu um daginn hjá Krækjunum og var það ótrúlega gaman.....ætla sko að halda þar áfram í haust :) Þær taka sér frí á sumrin :)
Ég var að sjálfsögðu blá og marin á handleggjunum eftir æfinguna....en það var þess virði :)

Georg Rúnar er búinn að koma til okkar og Helgi er líka búinn að koma :) Það var virkilega fínt að fá strákana sína heim :)

Margrét og Helgi keyrðu sl. fimmtudag vestur og í dag ætlar Margrét að keyra ein heim :)
Vona að allt gangi vel hjá henni og að heiðarnar séu snjó/hálku litlar!!!

SPÁKONAN Á KAMBINUM ÓSKAR YKKUR ÖLLUM GLEÐILEGRA PÁSKA :)

30 March 2009

Bloggað smá.....

Er ekki tími kominn á eitt stykki blogg eða svo :)

Georg Rúnar minn kom þriðjudaginn eftir að tengdó voru hér :)
Hann var svo sætur að gefa okkur þessa líka fínu kaffikönnu (til að hella upp á) og hitakönnu :) Þannig að nú er hægt að bjóða upp á HEITT kaffi fyrir þá sem reka við hjá okkur :)

Sl. föstudag fóru þau keyrandi til Reykjavíkur, Pétur, Georg Rúnar, Margrét Alda og Bergljót Ásta.....en frúin var ein eftir í kotinu!!!
María Sif kíkti aðeins til mín á föstudagskvöldið og var það ljúft :)
Heima hékk ég allan laugardaginn og vissi ekki hvað ég átti af mér gera.....leiðist svona einni!!! Hékk í tölvunni meira og minna allan daginn og um kvöldið til skiptis í tölvunni og horfa á sjónvarpið!!!

Ætlaði aldeilis að sofa út báða frí dagana....laugardagsmorguninn var ég vöknuð hálf átta og sunnudagsmorgun kl SJÖ!!!! Ráfaði hér um og kíkti enn og aftur í tölvuna.....kl 9 um morguninn var mér hætt að lítast á sjálfa mig, þar sem ég stóð mig að því að vera farin að tala við sjálfa mig á fullu!!!! Ákvað þá að hringja í mömmu og aðeins að þenja raddböndin.....við gátum spjallað saman held ég hátt í klukkutíma :)

Svo kom Margrétin mín fljúgandi í gær, þó veðrið væri vont....mikið var ég glöð og kjaftaði hana nánast í kaf :) Hún kom blessunin með kjúklinga box frá KFC.....og var það sko vel þegið jummijumm :)

Í gær áttu þær svo afmæli, Gunnhildur systir 51 árs og Júlla Baddý 30 ára :)
Hvorugar vildu svara mér er ég hringdi en náði að senda JBB kveðju á fésinu :)
Óska þeim innilega til hamingju með daginn :)

Hún Valborg dóttir Þrúðu og Valla hefði líka orðið 30 ára í gær.
Sendi Valla og Þrúðu góðar kveðjur og blessuð sé minning Völlu.

Þetta var blogg dagsins.

21 March 2009

Gaman er þegar nóg er að gera og margir í kringum mann :)

Nú er gaman :)

Tengdó komu á fimmtudaginn + Ásta mágkona :)
Þau komu með okkur á Árshátíðina hjá Bergljótu Ástu, sem haldin var í Bifröst :)
Þar sýndi 2. bekkur leikrit og söng og höfðum við mjög gaman af :)
Þótti mér að sjálfsögðu mín stelpa standa sig með sóma sem og hin börnin að sjálfsögðu :)

Eftir sýninguna fórum við í Hús Frítímans en þar var karlakórinn Heimir með opið hús og gátu allir sem vildu koma og hlusta á æfinguna hjá þeim :)
Það var líka mjög mjög gaman....og að sjálfsögðu var ég stolt af mínum manni þar :)

Í gær eftir vinnu fórum við 10 "stelpur" úr vinnunni til Akureyrar á leikritið FÚLAR Á MÓTI og jeminn eini það var ein risa hláturbomba í 2 klst.......þessar konur eru frábærar HELGA - EDDA - BJÖRK........eftir sýningu fórum við á tælenskan matsölustað og átum þar eins og við gátum :)
Síðan var brunað heim :)

Í morgun gengum við Margrét Alda 3 km
Klukkan 13:00 fór ég á æfingu hjá leikfélaginu og var hvíslari þar til klukkan 15:00
Gaman gaman :)

Nú svo um kl 16:00 í dag tókum við hjón þátt í prófkjörINU :)

Ég elska svona helgar þegar nóg er að gera og ekki er það verra að sólin skín og er smá vor í lofti :)

Góða helgi allir :)

18 March 2009

Leti leti......

Leti í frúnni í dag :(
Nennti ekki út að ganga :(
Pétur minn í vinnunni!!!

En það er nú ágætis hreyfing að setja í og taka úr þvottavélinni....og setja í og taka úr þurrkaranum.....eða er það ekki????

Er að sjóða ýsu í kvöldmatinn :) Jammi namm :)

Hafið það gott :)

17 March 2009

3 KM í dag jibbýýýý :)

Hef svo gaman af að gorta....sérstaklega þegar ég hef efni á því :)

Við hjónin gengum nefnilega 3 km í dag eins og í gær :)

Kókistinn ég hætt að drekka kók virka daga.....en sennilega um helgar :)
Vona bara að Vífilfell fari ekki á hausinn....en það er þá bara allt í lagi,því aldrei hef ég fengið neina uppbót frá þeim......þó ég hafi nú verið ein af mörgum sem hef styrkt þá með mínu kók þambi!!!!

Monti mont :)

16 March 2009

Göngum göngum.......

Djöss dugnaður í frúnni :)
Í gær gengum við Bergljót Ásta 4,1 km :)
Núna vorum við hjónin að koma úr göngu og voru það ca 3 km
Nú svo gekk ég heim úr vinnunni í dag :)

Það er nú bara ekki svo slæmt að hreyfa sig sko!!!!!

Og svo er kókakólað geymt fram að helgi :)

15 March 2009

Sunnudags hreyfing í sól og fallegu veðri :)

Það er nú orðið daglegt brauð hjá þeim Pétri og Margréti að fara í ræktina....líka um helgar!!!!
Í dag er þau skelltu sér þangað, þá fórum við Bergljót Ásta í okkar rækt :)
Við nefnilega gengum rösklega í klukkutíma :)
Ótrúlega glaðar sko :)
En við tvær erum ekki í megrun....heldur bara svona að hreyfa okkur til gamans :)

Síðan er ég ekkert að láta hana endilega vita að ég stíg nú öðru hverju á viktina!!!!

En mikið er ég stolt af henni Þórdísi Björnsdóttur frá Þórustöðum, en ég sá hana í skólahreysti taka 41 armbeygju :)

Jæja lærið er komið í ofninn...ummmmmm

Til lykke Illugi og co :)

Illugi, Binna og við öll hin, til hamingju með stórkostlegan sigur :)

Nú er bara að fá hana Eyrúnu í fyrsta sætið hjá okkur og þá er þetta frábært:)
Vona svo sannarlega að EKG verði ekki í neinum af fyrstu þremur sætunum hjá okkur.....því þá mun ég kjósa eitthvað allt annað en sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum!!!

Mér líst mjög vel á Gunnar Braga sem okkar fulltrúa á þing!!!

En nú hljómar í útvarpinu "ef ég væri guð" og sennilega er það hann Helgi Björns sem syngur það....ég veit hver þessi Helgi er....en hver er þessi guð!!!!!

14 March 2009

Dugnaður í frúnni :)

Frúin er búin að vera að myndast í eldhúsinu í dag :)
Bjó til rækjusalat--gerði heitan rétt (sem bíður í ísskápnum eftir að verða settur í ofninn)
og setti á perutertu :)
Nú svo er verið að fara að búa til þennan líka yndælis fiskrétt í ofni :)
Nú er bara að sjá til hvort einhver rekur við hérna á Ægisstígnum :)

Hallóóó einhver fyrir vestan á leið í heimsókn til mín á morgun....eða????

Svo er bara allt gott að frétta héðan.
Eftir ræktina .......nei nei ég fór ekki í ræktina.....þau sjá alveg um það, þau Margrétin mín og hann Pétur minn :) Já semsagt eftir ræktina fórum við í fjölskylduferð í.....Skaffó....að versla inn :) ......þið vitið.....Pétur minn vill ekki versla í Bónus!!!!!

EN alltaf gaman að fara í svona fjölskylduferðir......

Nú í gær eftir vinnu þá fórum við mæðgurnar þrjár í göngu upp á Nafir :)
Það var nú sko aldeilis rækt fyrir frúnna!!!!

Annars bara allt fínt héðan....langar þó dálítið vestur....allavegana svona stundum um helgar!!!

09 March 2009

Myndir- myndir :)

Margrétin mín er búin að setja inn myndir í linkinn hér hægra megin "nýja myndasíðan mín"
Þetta eru myndir frá því ég var fyrir vestan :)
MYNDIR:

Ásta í heimsókn.
MAM og Sigga systir að máta fínu gleraugun hans PB.
BÁP að passa Tristan Berg.
Amma og afi í Hfj.
BÁP í flugvélinni á leið vestur.
Kaffi heimsóknir á heilsugæsluna og sparisjóðinn.
4 ættliðir hjá Jóhönnu Kristjáns.
Heiða læknir að taka sauminn úr hnénu á mér og Gulla að mynda það!!!
Í heimsókn hjá Grétari og Daða LEEDSara :)
RKH og BÁP hjá ömmu Gróu.
Við Gulla og Alla í skötuboði hjá Ívari, Sigga og Bjössa.
Snjóflóð sem féll í lok janúar sl.

Gulla Stútungsformaður í prentsmiðjunni hjá Bigga.
Pizzudeigið hjá Gullu að hefast (við skruppum til Öllu á meðan)
Stútungskonur í heimsókn á G-2

Krummi krunkar úti.
Alla að hella appelsíni í rétta flösku er við vorum í heimsókn hjá Sigrúnu Gerðu á sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Gulli Finns og Inga Gunnars.

STÚTUNGUR-----STÚTUNGUR

Skemmtið ykkur nú á meðan þið skoðið þessar myndir gott fólk :)

Mánudagsblogg.

Í dag er ég heima með lasna Bergljótu Ástu.....eða hún er enn með svo ljótan hósta að við ákváðum að hafa hana heima í dag!!!
Mér finnst afskaplega leiðinlegt að hanga heima lasin eða með lasið barn :(

Hér hefur snjóað þokkalega mikið og hef ég ekki séð svona mikinn snjó hér áður!!!
Bíllinn okkar var fastur í innkeyrslunni en þær galvösku stúlkur, Margrét Alda og Sigga Kristín mættu og mokuðu......nú já síðan fengu þær "smá" hjálp af tveimur vöskum körlum :)

Það á enn að bæta í snjóinn og versta veðrið á víst að vera á miðvikudaginn!!!
Þoli ég snjó????.....öhhh nei það geri ég sko alls ekki...aarrrrgggg :(

Um sl. helgi kom hún María Sif í heimsókn til mín með skeinara sem á eftir að nýtast okkur sennilega mjög vel :) Thank you María Sif :)

Kristinn Andri kom í kaffi til Spákonunnar og þótti mér afskaplega afskaplega vænt um það :) Mér finnst alltaf svo gott og gaman að vita hvað krakkarnir frá Flateyri eru alltaf trygg við mig :)
Enda þykir mér afskaplega mikið vænt um þau :)

Ég fékk líka heimsókn á laugardagskvöldið, en þá komu þau Magnea og Björn :)
Alltaf gaman að fá þau í heimsókn....mikið spjallað og hlegið....allt frá hestum til leiðindar tíkarinnar....pólitíkarinnar!!!! Þetta var mjög gaman,þar til veðrið fór að versna þá héldu þau heim á leið :)

Skellti í skúffuköku í gær en síðan var eiginlega bara leti allan daginn....eða þar til það kom að því að sjóða sviðin og rófurnar....sem var síðan étið af bestu getu :)
Margrét át tunguna og gómfylluna af mikilli innlifun....BÁPan gerði ekki annað en að grandskoða hvern og einn einasta bita, áður en hann fór ofan í hana og skyldi ekkert í því að við værum að láta hana éta HAUS AF KIND!!!!

Læt þetta duga í bili :)
Ætli einhverjir lesi ennþá blogg....eftir að fésbókin kom inn!!!

07 March 2009

Góða nótt.

Georg minn er kominn af sjónum og í smá frí.
Helgi minn er enn úti á sjó.
Margrét mín er í fríi í Reykjavíkinni.
Bergljót Ásta mín er sofnuð....en með ljótan hósta.
Pétur minn er að vinna.
Og ég mín er að fara að sofa.

Bona nox.

04 March 2009

Margrét Alda 19 ára :)

Á morgun er 5. mars :)
Á morgun á hún Margrét mín Alda afmæli :)
Á morgun verður stelpan 19 ára :)
Jeminn eini, mér finnst svo stutt síðan ég fæddi hana og stúlkan var rúmar 20 merkur :)

Til hamingju með daginn elsku Margrét Aldan mín :)
Við elskum þig mikið mikið :)

02 March 2009

Mánudagurinn 2. mars :)

Við Bergljót Ásta skelltum okkur í bíó í gær eftir góðan göngutúr :)
Myndin heitir BOLT og var mjög skemmtileg :)



Er að hugsa um að fækka eitthvað kílóunum sem endalaust hafa hlaðist utan á mig!!!

27 February 2009

Skyndihjálpar námskeið.

Í gær fórum við á leikskólanum á skyndihjálpar námskeið.
Það var haldið í Varmahlíð.
Við vorum 60 konur (frá nokkrum leiksk.)
Það var einn kall sem kenndi.
Helvíti góður kennari og heitir Kalli.
Ef eitthvað kemur fyrir mig vil ég fá hann til að bjarga mér.....nú eða hann Pétur minn sem er líka mjög góður í skyndihjálp.

Við lærðum að sjálfsögðu m.a. að hnoða og blása.
Ég fékk sáran sting í hjartað þegar við vorum að læra allt um það.....mér varð hugsað tæp 5 ár aftur í tímann.....þegar hún Sif mín dó.

Sá allt fyrir mér....þegar Gulla mín gerði allt sem hún gat.....þegar Heiða hjúkka kom og gerði allt sem hún gat....ég blés ekki.....ég hnoðaði ekki.....ég hringdi á 112.....í Heiðu....í Pétur.....svo kom Pétur á löggubílnum og tók við af stelpunum, sem voru orðnar eldrauðar og kóf sveittar og uppgefnar.....svo kom sjúkrabíllinn.....og þeir reyndu.....svo tóku þeir hana með til Ísafjarðar....ég mátti ekki fara með sjúkrabílnum....skildi það ekki þá....en skil það núna.....Sifin mín dó......stór hluti af mínu hjarta dó.........

Þegar þetta er skrifað er ég sorgmædd og illt í hjartanu.
Ég er meistari í að "fela" líðan mína á daginn og finnst mér það gott.
Já mér er illt.
Hef ég áhyggjur af hverjir komast við völd eftir kosningar? Nei.
Skítt með alla pólitík, hún er ljót.
Í þeirri ljótu tík tekur fólk ekki utan um hvert annað né er umhugað um líðan hvers annars.

Ég er fegin að hafa farið á þetta skyndihjálpar námskeið, já mjög fegin.

21 February 2009

Laugardagurinn 21. febrúar :)

Það er kominn laugardagurinn 21. febrúar :)
Já þetta líður áfram.....frekar hratt :)
Bergljót Ásta er búin að vera heima alla vikuna, nema einn dag fór hún í skólann!!!
Hún er búin að vera með þennan leiðinda hósta blessunin!!!
Pétur gat mætt einn dag í vinnuna, annars er hann líka búinn að vera með þennan leiðinda hósta síðan við komum að vestan!!!
Við Margrétin hrækjum þessu úr okkur.....enn allavegana!!!

Ég hef svo gaman af að segja ykkur frá fólki sem á afmæli :)
Í dag á hín Olla systir Hjalla afmæli og óskum við henni til hamingju með daginn :)

Í dag á hún líka afmæli-----hún Tobba systir eins og ég kalla hana.......reyndar er hún Gullu systir :) Við óskum henni Tobbu okkar líka til hamingju með daginn :)
Bestu kveðjur til ykkar frá okkur :)

Eigið góðan dag gott fólk :)

20 February 2009

20. febrúar 2009

Árið 1990 20. febrúar átti ég að eiga hana Margréti Öldu....en hún lét nú bíða eftir sér til 5. mars það ár!!!!
Ég man bara að ég var sett þennan dag vegna þess að hún Guðfinna Hinriks á afmæli þann 20.

Og í dag er einmitt 20. febrúar og vil ég því senda henni Ninnu minni bestu afmæliskveðjur í tilefni dagsins :)

Það var gott að búa á móti henni Ninnu á Grundarstígnum :)
Ninna spáði í bolla og fór ég oft til hennar og bað hana að spá fyrir mér.
Hún lét mig alltaf fylgjast með slettunum sem hún benti á og sagði mér hvað þær merktu.
Ég fylgdist vel með.
Mér þótti aldrei gott kaffi en píndi því ofan í mig til að fá spádóm og ég man í fyrsta skiptið sem ég drakk úr bolla hjá henni, hljóp ég heim og ældi helv...kaffinu!!!!

Ég á margar góðar minningar með og um hana Ninnu.......hannyrðabúðin í kjallaranum....kennslan í skólanum....dillandi hláturinn hennar og margt margt fleira :)

Núna býr Ninna og hefur lengi gert, á Grund.

Ninna mín hjartanlega til hamingju með daginn :)
Bestu kveðjur frá okkur á Króknum :)

18 February 2009

Æ þetta er búið!

Æ hvað ég vonaði að Villi Valli fengi verðlaunin!
Æ hvað ég er samt glöð að hann var tilnefndur!
Æ hvað hún Dorrit var sæt!
Æ hvað hún var krúttleg að reyna að syngja með í lokin!
Æ hvað hún er bara mikil dúlla!
Æ hvað hann Örvar(svili minn sko) var flottur í söngnum!
Æ hvað hann Valgeir er eitthvað....jámm!
Æ hvað Baggalútur eru alltaf skemmtilegir!
Æ hvað ég vildi að þetta hefði verið lengur!
Æ það er ekki oft sem kona nennir að góna á sjónvarp!
Æ ég segi bara góða nótt!

Dásamlegt :)

Jæja maður er bara sprækur sem lækur í dag :)

Bergljót Ásta fór í skólann í dag, þó hún hósti nú aðeins.....en hún ólm vildi fara og fær að vera inni í frímínútunum :)

Margrétin mín í skólanum eins og aðra daga :)

OG Pétur minn gat byrjað í dag að vinna :)
Í seinustu viku fór hann með puttann í myndatöku og kom þá í ljós að loksins er beinið byrjað að gróa :)
Eftir fjögurra mánaða veikindafrí var hann nú mjög glaður að geta loks byrjað....og frúin grætur það nú ekkert :)

Nú þar sem ég er alein heima var ég ákveðin í morgun kl sjö að ég ætlaði pottþétt undir sængina aftur......en nei það er svo gaman að geta valsað hér um ein, með tónlistina í botni.....svo frúin fór nú bara í það að búa um, taka úr uppþvottavélinni, setja í þurrkarann og í þvottavélina og halda áfram að þrífa og og og..........

Lífið er dásamlegt eins og maðurinn sagði.......

17 February 2009

17. febrúar 2009

Í dag er afmælisdagur látinnar vinkonu minnar, hennar Gittu.
Ég sakna þess að heyra ekki rödd hennar en við töluðumst oft saman í síma.

Ég held það sé að koma vor.
Ég er að þrífa hjá mér.
Lítið að frétta svosem.
BÁPan er lasin, síðan á sunnudag.

Ég sakna enn og aftur vina minna.
Ég sakna Sifjar minnar.
Og já ég sakna margs.
Söknuður er sár.

14 February 2009

Þorvarður Hinriksson :)

Með Ellu og Hinriks leifi get ég sagt ykkur að búið er að gefa litla drengnum þeirra nafn :) Heitir hann ÞORVARÐUR í höfuðið á pabba Ellu :) Fékk hann nafnið í dag :)
Til hamingju með það öll saman :)

Hlakka ótrúlega mikið til þegar Þorvarður fer að geta talað smá, að spyrja hann hvað hann heitir!!!! Sé það alveg fyrir mér :)

En þetta er mjög íslenskt og fínt, enda drengurinn fæddur á Þorranum :)

Aftur til hamingju með nafnið kæra fjölskylda :)

13 February 2009

Alþjóðakvöld í Húsi Frítímans!!!

Ákveðið var í dag að við mæðgurnar þrjár á Ægisstíg 4 færum með nokkrum öðrum konum í kvöld í Hús Frítímans :) Þar var Frístundasvið og Rauði Krossinn að bjóða öllum íbúum Skagafjarðar upp á alþjóðakvöld, þar sem allar þjóðir áttu að koma saman :)
Við mæðgur hlökkuðum til :)

Þegar við mættum voru margir búnir að koma og fara en enn voru nokkrir.
Reyndar voru bara þarna pólverjar og ítali.
Við smökkuðum pólskan mat og kaffibrauð og drukkum kaffi:)
Spjölluðum að sjálfsögðu við fólkið á staðnum :)
Mjög huggulegt og kósí.

Þangað til Ania, pólsk samstarfskona mín kom með A-4 blað og sýndi okkur og sagði að svona blöðum hafi verið fest á alla bíla sem fyrir utan voru!!!
Ég varð öskureið er ég las það sem á blaðinu stóð!!!
Eins urðu hinir---reiðir og leiðir.
Fyrirsögnin á blaðinu var :Fjölmenning er þjóðarmorð
Síðan kom ljótur texti sem ekki verður skrifaður hér!!!
Neðst á blaðinu stóð :Alþjóðahyggja er menningarsjálfsmorð dulbúið sem "framþróun" og "frelsi"
Ísland fyrir Íslendinga

Ég segi nú bara hvað er að fólki????
Hver getur hjálpað svona fólki????

Ég er eiginlega alveg miður mín yfir þessu.

12 February 2009

Afmæli..........

Ég er svo montin að vera komin með nýja myndasíðu hér í link :) Takk takk :)
Nú fara að hlaðast inn myndir þar vonandi sem fyrst :) Alltaf gaman að skoða myndir....ekki satt???

6. febrúar sl. varð hún Magnea fimmtug og sama dag átti hann Þórir okkar afmæli :)
Ég var búin að kyssa hana Magneu til hamingju og langar að segja til hamingju elsku Þórir okkar:) Ég er viss um að hún Júlla Baddý mín hefur stjanað við þig þann dag :) Þið eruð svo falleg hjón......ég er alveg að komast í væmnisgírinn!!!!

6. febrúar sl. eignuðust þau Hinrik Rúnar og Ella lítinn son (var kannski búin að nefna það á blogginu) og veit ég að hann fær nafn eftir nokkra daga.....held það verði Grói....eða Pétur eða eitthvað svoleiðis :) Til hamingju Hinrik og Ella :)

Hún Ásta mágkona átti svo afmæli þann 7. febr og gleymdi ég alveg í öllu amstrinu fyrir vestan að hringja í hana!!! En er nú búin að því núna sko :) Elsku Ásta til hamingju með daginn :)

Nú 10. febrúar átti svo frændi minn hann Auðunn Gunnar afmæli :) Til hamingju elsku Auðunn :)

Í gær 11. febrúar áttu þau heiðurshjón Jóna og Björn Ingi 30 ára brúðkaups afmæli :) OG ég gleymdi að hringja en segi núna til hamingju með daginn elsku systir og mágur :)

Þá erum við komin að 12. febrúar, sem er í dag en þá á hinn flotti pabbi (ekki þó pabbi minn) hann Bragi Ólafsson afmæli :) Til hamingju elsku Bragi :) Ég reyndi nú að hringja áðan í elskulega unnustu þína en hún hefur verið að hugsa um litla labbakút hann Ólaf :) Þið eruð svo glæsileg :) Vona að þið eigið góðan dag/kvöld saman :)

Já þetta er nú aldeilis, segi ég bara :)

En til hamingju þið öll og munið að mér þykir vænt um ykkur :)

10 February 2009

Komin heim :)

Vinsamlegast ath að það var hún Margrétin mín sem skrifaði seinasta blogg sem er hér á síðunni!!! Lá greinilega frekar illa á henni :) En takk Margrét mín að setja inn myndirnar og takk "dönsku" systur að hægt er að smella beint á þær :)

En ég er semsagt komin heim aftur eftir frááááábæra ferð vestur :)
Þetta var svooo gaman að ég á eftir að ylja mér oft á minningum þessum, í vetur :)

Það er bara svo langt að telja upp það sem gert var að ég hreinlega nenni því ekki!!!
Bergljót Ásta var svo heppin að fá að vera í skólanum hjá Skarphéðni og Siggu og Sigga og öllum hinum og var hún virkilega glöð :)
Í sund fór hún reglulega til hennar Láru kláru :)
Gisti hjá Guggu og co tvær nætur og þar var stjanað við hana hægri vinstri :)
Hún lærði að hekla hjá Siggu í skólanum og segist vera að hekla trefil fyrir Elínu litlu frænku sína :)

Við gistum hjá Gullu og EFG sem er toppurinn og þar var stjanað við okkur hægri vinstri líka....þó frúin hafi verið á Stútungs æfingum öll kvöld :)

Við fórum í fimmtugs afmæli til hennar Magneu vinkonu, en hún hélt það á Sólbakka 6 :)
Það var alveg meiri háttar :)

Við fórum á Stútung sem var bara algjört ÆÐI :)
Það var svo gaman að það hálfa væri bara hellingur!!!!
Já þvílíkt fjör :)

Á meðan dvöl okkar stóð þá eignuðust Hinrik Rúnar og Ella lítinn strák :)
Myndir af honum má sjá á blogginu hennar Ellu (sem er í link hér á þessari síðu)

Ég veit ég gleymi að segja ykkur frá einhverju en það kemur bara seinna :)
Eigið góðan dag gott fólk :)

06 February 2009

Jæja ágæta fólk !

Ég er búin að fá mig full sadda af þessu endalausa væli um nýja myndasíðu og láta myndirnar frá áramótunum frá Flateyri inn. Í dag, var sá dagur sem þetta gerðist, ég gafst upp og bjó til nýja síðu og lét myndirnar næstum 300 inn, sleppti ekki einni einustu mynd. Þannig að það fóru allar myndirnar inn og ef það sé ekki flott mynd af ykkur inná þá bara "æjæj". Myndaðist ekki nógu vel í þetta skipti. En heimurinn verður ekkert leiðinlegri við það ...

Njótið elskurnar

nýja myndasíðan er hérna

Sæl að sinni ...

Dagur leikskólans og afmæli :)

Jæja í dag er Dagur leikskólans :)
Til hamingju öll leikskólabörn og starfsfólk :)

Í dag á hann Þórir eiginmaður Júlíu afmæli og sendum við honum bestu afmælisóskir :) Þórir minn þær mamma og Gugga biðja líka fyrir rosa góðum kveðjum til þín :)

Hún Magnea á líka afmæli í dag....enda mætt hingað vestur konan :)
Frúin er fimmtug og óskum við henni líka til hamingju með daginn :)

Þetta er svo frábær dagur enda ákvað sólin að skína núna......bæði í hjarta sem sinni.....og já úti líka :)

Eigið góðan dag gott fólk :)

05 February 2009

Afmæli og afmæli......

Það er svo mikið að gera hjá frúnni þessa dagana.....að hugsa um rassinn á sjálfri sér, að hún gleymir að segja frá ýmsu!!!!
Eins og t.d. gleymdi ég að segja ykkur frá því að hún Lára klára átti afmæli sama dag og hann Georg minn, þann 2. febrúar :)
Til hamingju með það Lára mín :)

Sigga Eggerts átti afmæli í gær :)
Til hamingju Sigga mín :)

Nú svo í dag á hún frú Þorbjörg Sigþórsdóttir afmæli :)
Hún Tobba okkar á heilsugæslunni :)
Frúin er fimmtug í dag :)
Sigurður Hafberg hennar eiginmaður varð fimmtugur þann 5. janúar :)
Til hamingju hjón með öll þessi ár til samans :)
Ætla rétt að vona að þau komist vestur á laugardaginn til að taka þátt í Stútung með okkur :)

Jæja en afmælin halda áfram á morgun.....
Meira blogg þá :)

03 February 2009

Kyndilmessa :)

Í gær byrjaði Kyndilmessa :)
Ljóðið sem ég lærði um hana er svona:

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa Kyndilmessu
Snjóa vænta máttu mest
maður upp frá þessu.

En hvernig er ykkar útgáfa???

Annars er allt gott að frétta héðan :)
Pétur minn er mættur á svæðið, en kom hann keyrandi í dag :)

Hafið (eða fjöllin) það gott sem lengst :)

02 February 2009

Hann á afmæli í dag :)

5 mínútum yfir ellefu að morgni til (þriðjudeg) fyrir 27 árum þá fæddi ég mitt fyrsta fallega barn :)
Hann fékk nafnið Georg Rúnar.....en eins og ég hef áður sagt hér ætlaði ég að nefna hann Ermar.....en þá varð allt vitlaust!!!!

Til hamingju með daginn elsku Georg Rúnar minn :)
Vona að þú eigir góðan dag í dag :)
Elska þig mikið mikið :)
Kveðja frá okkur öllum til þín :)

31 January 2009

Daginn í dag, daginn í dag gerði.....vodkasystur!!!

Virkilega rólegur og notalegur dagur í dag :)
Við Eiríkur Finnur byrjuðum morguninn á spjalli með kaffibolla við eldhúsborðið :)
Síðan bættust þau við, BÁP, Smári og Telma og svo LÖÖÖÖNGU seinna frúin á bænum....nei djók :)
Við Gulla fengum okkur göngutúr eftir hádegið og fylgdum Bergljótu Ástu upp að sundlaug þar sem hún fór í sund með þeim Helenu og Lísu :)

Við komum við í sjoppunni sem allt fæst þar núna :)
Komum við í kaffibolla hjá henni Öllu okkar og fórum við svo þrjár vodkasysturnar akandi á Ísafjörð (á Öllu bíl) og skelltum okkur í heimsókn á sjúkrahúsið til hennar Sigrúnar Gerðu :)

Sigrún bauð okkur í betri stofuna á sjúkrahúsinu og bauð okkur upp á góðan drink (egils appelsín) og hafði Gulla mín það hlutverk að hella úr flöskunni hennar Sigrúnar, eða hún sá að það stóð allavegana S eitthvað á flöskunni....sem seinna kom í ljós að þetta var ekki Sigrúnar flaska heldur appelsín flaskan hans Skúla á Gemlufelli!!!!

Nú Alla mín fékk þá það hlutverk að hella úr Sigrúnar flösku yfir í Skúla flösku svo hann fatti nú ekkert.....og því megið þið ekkert segja honum frá þessu!!!!
Það er sko ekki spurt að því að þar sem Vodkasystur koma saman tekst okkur alltaf að klúðra einhverju......en frúin ég tók nú myndir af þessu, sem vonandi koma einhverntímann í myndaalbúmið hér á síðunni :)

Eftir gott stopp hjá frú Sigrúnu Gerðu ókum við heim (á Öllu bíl) sem aldrei er bensínlítill hvað þá bensínlaus!!!!

Alla hefur aldrei séð ljósið gula/rauða sem kemur þegar bíllinn er að verða bensínlaus!!!
En í dag SÁ ALLA LJÓSIÐ!!!!!!!!!!!!!!
Við Gulla erum búnar að druslast á bílnum hennar seinustu daga og ekkert pælt í LJÓSINU....enda var bíllinn fylltur seinast um áramótin af góðum íslending!!!!

Nú svo það var stoppað á N-1 á Flateyri og dælt bensíni á blessaðan bílinn.....Alla borgaði....já ég veit við erum ljótar að hafa ekki borgað það....en svona erum við stöllur......en hafið þið reynt að þræta við hana Öllu um að borga eitthvað!!!!!

Nú síðan var hér auðvitað hátíðar lambasteik og allir átu á sig gat :)
Ég stend undir nafni okkar systra í kvöld en þær eru nú eitthvað lélegri við það.....enda voru þær hressar í gær, þessar elskur :)

30 January 2009

Kristalskálin og amma :)

Gaman að sjá að þið hafið gaman af að kíkja hér við gott fólk :)
Nú mun ég alltaf hugsa um ykkur 9 sem kommentuðu, þegar ég blogga :)

Má til með að segja ykkur frá því að í gær bauð hún mamma okkur Bergljótu Ástu í saltkjöt, sem var náttúrulega ótrúlega gott :)

Eftir átið settumst við inn í stofu til að jafna okkur.....aðllega þó ég þar sem ég át yfir mig enn og aftur!!! (kvöldið áður hafði ég nefnilega étið yfir mig af kjötsúpu hjá henni Gullu minni)

Jæja en mamma segir allt í einu við hana Bergljótu með svona "sorglegri" rödd "Bergljót mín þegar amma deyr þá átt þú að fá þessa kristalskál (og bendir á eina fallega skál) BÁP spyr "nú af hverju" og horfði á ömmu sína eins og hún væri bara að fara að leggjast niður og deyja!!!
"vegna þess að Bergljót amma þín gaf mér hana einu sinni" segir sú gamla með tárin í augunum.....umhum kom frá þeirri stuttu og vissi hún ekki alveg hvernig hún átti að vera, en hélt bara áfram að teikna mynd af ömmu sinni!!!

Þá rík ég upp úr sófanum og fer að hoppa og klappa og segi "Jibbý Bergljót hlakkar þig ekki til þegar amma deyr....þá færðu kristalskál jihúúúúúú" !!!!

Mamma gat nú ekki annað en hlegið og tók undir með mér og fór að klappa og dansa og sagði "já Bergljót mín þú getur sungið og dansað í skólanum á morgun og sagt þeim frá því að þegar ég dey þá fáir þú kristalskál" Og svona héldum við áfram vitleysingarnir ég og mamma!!!

Sú stutta horfði bara á okkur og hristi höfuðið og sagðist ekki ætla að fara að láta svona í skólanum eins og við......hún ætlaði semsagt ekki að fara að fagna dauða ömmu sinnar út af kristalskál né öðru!!!!!

En þið segið henni mömmu ekki frá því að ég hafi sagt ykkur þetta.....hún yrði vitlaus :)

Eigið góðan dag, það ætla ég að gera hér í blíðunni :)

29 January 2009

Er einhver þarna :)

Er bara að spá í hvort það séu einhverjir ennþá sem lesa bloggið mitt, sér til skemmtunnar!!!
Því ef svo er væri nú gaman að fá komment.......eller hur????

Þetta er semsagt bara smá tékk :)

Lifið heil :)

28 January 2009

Önundarfjörður :)

Jæja góðan daginn :)
Nú er frúin mætt í Önundarfjörðinn sinn :)
Við Bergljót Ásta flugum í gær í þvílíkri blíðu að flugið tók aðeins 35 mínútur :)
Við áttum pantað herbergi hjá Gullu og Eiríki og erum semsagt þar í góðu yfirlæti :)

Bergljót Ásta fékk að fara í skólann hér á meðan við stoppum :)
Lauga kennari hennar á Króknum var svo góð að koma með námsbækurnar hennar Bergljótar til okkar á sunnudaginn og Skarphéðinn og Sigga voru svo frábær að lofa henni að vera í skólanum hér :) Skólastjóri og kennari á Króknum eru frábær :) Skólastjóri og kennarar á Flateyri eru frábær :) Já það er gott að eiga góða að :)

Nú sit ég við tölvuna hennar Guggu og heyri að Halli minn tattú töffari er að vakna til lífsins :)
Best að fara og knúsa þann töffara og kannski fá far með honum niðureftir :)

Eigið góðan dag :)

26 January 2009

Bloggidiblogg :)

Góðan dag gott fólk :)

Það er nú frekar langt síðan ég bloggaði seinast!!!

Ásta mágkona búin að koma í heimsókn til okkar og stoppa í tvo daga :)

Það var heljarinnar partý á Ægisstígnum sl. laugardag......eða þannig!!!
Við Pétur og Ásta dilluðum okkur og sungum með lögunum sem Pétur spilaði fyrir okkur :) Ég byrjaði á að elda kjötsúpu og Pétur minn og Ásta matreiddu HUMAR sem etinn var með bestu bestu lyst :)

Fleiri vorum við ekki í þessu svaka partýi!!!! Reyndar kíktu þær "systur" Margrét Alda og Sigga og mátuðu fínu gleraugun :) Þetta var ótrúlega skemmtilegt hjá okkur :)

Í hádeginu í gær átum við síðan kjöt og kjötsúpu :)
Hún María Sifin mín mætti í smá kaffi og er hún alltaf jafn hress og skemmtileg :) Heppin ég að hafa kynnst henni :)

Við Ásta og Bergljót Ásta keyrðum síðan til Akraness í gær og gekk það vel :)
Ásta er að fara í vinnu til kl þrjú í dag og eftir það keyrum við í Hafnarfjörðinn til tengdó :) Nú svo á morgun fljúgum við vestur :) Jibbýýýýýý :)

Eigið góðan dag gott fólk :)

23 January 2009

Öllu afmæli.....

Ómægod var svo mikið að hugsa um að í dag væri Bóndadagurinn að ég gleymdi að setja á bloggið að ein af bestu vinkonum mínum á afmæli í dag !!!!

Hún ALLA mín á nefnilega afmæli í dag :)
Til hamingju með daginn elsku elsku Alla mín :)
Þar sem ég er ekki fyrir vestan hjá þér núna,þá veit ég að hún Gulla mun hugsa vel um þig á þessum merkisdegi.......eins og henni er einni lagið (og eins og við höfum gert þegar við erum þrjár saman)

Til hamingju og mundu hvað ég er sjúúúúúúúk í að hann Jónas þinn komi líka á Stútung!!!!!

EN hann Pétur minn hefur ekki hlaupið hringinn um húsið á brókinni einni fata, svo hann hefur enn öngva gjöfina fengið..............

Bóndadagurinn :)

Í dag er Bóndadagurinn :)

Ég man fyrir nokkrum árum á Konudaginn, þegar ég ruglaðist eitthvað og færði Pétri mínum morgunmat í rúmið, þann dag........og þess vegna beið ég í morgun eftir morgunmat frá honum inn til mín!!!! En nei það gerðist nú ekki :)

En það er best að vera góð við minn bónda í dag og öðrum óska ég til hamingju með daginn :)

Lifið heil :)

20 January 2009

EF......

Ef ég væri lögga: hefði ég ekki þolinmæði í fólkið!

Ef ég væri ríkisstjórnin: myndi ég drulla mér út úr þinghúsi og skammast mín oní rassgat!

Ef ég væri mótmælandi: myndi ég ráðast inn í þinghús og henda fíflunum út!

18 January 2009

Sunnudagurinn góði :)

Jeijjjj er super hress og til í hvað sem er.....næstum :)

Ægisstígsfólkið er hið hressasta :)
Ég er í góðum gír, finn ekki fyrir neinum verkjum í hnénu.....n.b. læknirinn var búinn að segja mér að ég myndi finna mikið til fyrstu dagana, en frúin ég er svo töff og kúl :)

Pétur hendir sér úr næstum hverri spjör alla daga og hoppar út á pall og ofan í heita pottinn til að ná bak verkinum úr sér!!!! Það virkar flott :)

Margrétin er búin að fara í göngutúr og er hin hressasta :)

BÁPan komin heim úr útlegðinni en hún gisti hjá Rebekku sl. nótt og leika þær nú á fullu inni í herbergi og má heyra hláturinn í þeim um allt hús :)

Þetta er semsagt hinn fínasti sunnudagur :)

17 January 2009

Svo er nú það :)

Jæja Pétur minn og Margrétin keyrðu mig á sjúkrahúsið á Akureyri í gær og létu svæfa mig..........en ég vaknaði nú aftur........enda frúin með nokkur líf :)

Aðgerðin gekk vel og nú er bara að jafna sig í nokkra daga :)
Frá vinnu verð ég að vera í 4 vikur að minnsta kosti!!!
Sko launuðu vinnunni :)

Svo það má þá búast við því að frúin sitji við og saumi í.......rææææt!!!!

Hafið það gott eða hafið bláa hafið múhahahahaha

15 January 2009

Til Akureyris.......

Í fyrramálið á ég að mæta á sjúkrahúsið á Akureyri til að láta laga á mér hnéð!!!
Ég verð svæfð og þeir krukka í hnénu.
Ég vakna og Pétur keyrir mig aftur heim.
Eða svona vona ég að þetta verði.

Ég er sko búin að hafa góðan tíma til að láta mig kvíða fyrir og það geri ég svo sannarlega!!!
Er svo dugleg að búa til allskyns vandamál áður en hlutirnir gerast og þ.h.!!!
Kvíði reyndar mjög fyrir svæfingunni.....eða reyndar hvort ég vakna aftur eftir svæfinguna!!!
Þeir hafa nú gert mistök læknar og er ekki líka einhver sýking þarna á sjúkrahúsinu á Akureyri, þessa dagana!!!!

En þær voru svo yndislegar konurnar sem ég vinn með, með hughreystingar orðin í dag að ég er viss um að þetta á eftir að ganga mjög vel :)

En næsta blogg verður þegar frúin getur næst sest við tölvu.....sem verður vonandi sem fyrst og já kannski bara annað kvöld :)

Eigið góða daga gott fólk :)

12 January 2009

Lítill frændi kominn í heiminn :)

Inga Rún og Bragi eignuðust dreng í nótt :)
Þann 12. janúar :)
Hann vó 3770 gr og er 55cm langur :)
Hann heitir Ólafur Bragason :)

Við óskum þeim Braga og Ingu Rún til hamingju með stubbinn :)
Við bjóðum Ólaf hjartanlega velkominn í heiminn :)
Megi þessi fallega fjölskylda blómstra :)

Til hamingju til hamingju :)


Es: Eina sem ég hafði rétt fyrir mér í seinni ágiskuninni er dagsetningin!!!!
Ekki mikil spákona, hún ég :(

11 January 2009

MAMMA MIA

Ómægod ó mæ god ég var að horfa á Mamma mia myndina, í fyrsta skiptið:)

Myndin er frábær og lögin öll eins og allir vita : frábær:)

Ég þakka nú fyrir að hafa ekki farið að sjá hana í bíó, því ég grét svo mörgum sinnum á meðan ég horfði :)

Þetta var nú aldeilis gaman og verður örugglega ekki langt þangað til ég set þessa mynd aftur í spilarann :)

MAMMA MIA

10 January 2009

Bloggið :)

Þetta gengur náttúrulega ekki hjá mér, en ég er eiginlega alveg að gleyma að blogga síðan ég fór á facebook!!!!

Lífið er bara dásamlegt þessa dagana :)
Svo sem ekkert mikið að gerast....eða þannig :)
Við höfum það bara þokkalegt hér, fólkið á Ægisstígnum :)

Vona að þið hafið það gott kæra fólk :)

Ég mun ÖRUGGLEGA blogga fljótt aftur :)

07 January 2009

Gaman gaman......

Jahh ekki eru spádómar Spákonunnar marktakanlegir, þar sem hún var búin að spá að Inga Rún og Bragi myndu eignast barnið í gær!!!!
Þá er það bara næsta ágiskun.....núna held ég að það verði þann 12. jan--16merkur--51cm og enn er ég viss um að það er stelpa :)

Annars er lífið bara yndislegt á Króknum þessa dagana :)
Ég er ekki lengur viss hvort Pollýanna leiði mig eða ég bara hana!!!

BÁPan glöð í skólanum :)
MAM byrjuð í Fjölbrautinni hér :)

Verra er það þó með puttann hans Péturs míns en hann fór með fingurinn í myndatöku í morgun.....og hangir nú myndin í stofunni.....nei djók :)
Nei en beinið er bara ekkert að gróa hjá honum!!!
Bara brot þvert yfir og grær ekkert :(
Það finnst mér nú mjög sorglegt.

Jæja en allt jóla dót og ljós komin ofan í kassa og bíða þeir nú bara í þvottahúsinu eftir að verða settir á sinn stað :)
Já jólin alveg búin á þessum bæ :)
Enda ætlar frúin að nota mestan tíma um helgina í að þrífa hér heima og áfram að þvo þvotta:)

Frúin er full orku þessa dagana og er það ekki slæmt :)

Eigið góða daga :)

05 January 2009

Yndislegt bara :)

Mikið var nú hressandi að vakna 06:40 og drífa sig á fætur og mæta í vinnu :)
Dagurinn verður mun skemmtilegri þegar maður er svo lánsamur að geta mætt í vinnu :)
Í dag vann ég bæði á Furukoti, skrapp svo í eldhúsið á Krílakoti og aftur á Furukot :)
Þetta var bara gaman og dagurinn fljótur að líða :)
Núna er vinnutíminn minn líka MUN skemmtilegri því nú vinn ég frá kl. átta til fjögur og vinn í hádeginu, en áður vann ég frá kl. átta til FIMM og fór heim í hádeginu :)

Labbaði heim úr vinnunni í dásamlegu veðri.
Kom heim og tók upp úr töskunum:)
Við MAM búnar að vera að þvo og þurrka þvott :)
Pétur minn sá um kvöldmatinn........prumpubaunir:)
Verður því fjör og læti í okkar rúmi í nótt :(

Það er annars gott að vera komin aftur í fallega Skagafjörðinn en sakna fólksins míns á Flateyrinni minni :)

BÁPan var mjög glöð að vakna í morgun og henda sér í föt, því hún var að fara aftur í skólann :)
Hún var mjög glöð með það :)

Pollýanna hefur verið eins og skugginn minn í allan dag og er það gott :)
Vona að hún haldi sér hjá mér næstu dagana, því það er nefnilega bara helvíti gott að hafa hana sér við hlið :)

En nú er það rúmið og fjörið sem mun fylgja því í nótt :)

04 January 2009

Takk fyrir mig takk :)

Jæja þá erum við komin aftur í Skagafjörðinn og gekk ferðin vel :)
Nánast snjólaust alls staðar :)

Fórum í frábæra afmælisveislu í gærkvöld, þar sem Magga "granna" hélt upp á 40 árin sín í Vagninum :) Jón Svanberg fór á kostum sem veislustjóri og söngelsku bræðurnir (hennar Möggu) tóku lagið :) Fyrir utan allt annað sem var BARA skemmtilegt :)
Síðan var dansað fram eftir nóttu :) Frábært :)

Leiðinlegasta sem ég geri er að kveðja og reyndi ég að sleppa við það að mestu í dag.....ég fer nefnilega alltaf að væla þegar kemur að þeim stundum!!!
Þannig að þið kæra góða fólk sem ég hitti á Flateyri, vil ég bara þakka fyrir góðar samverustundir og gaman var að hitta ykkur öll :)

Vonandi tekst að setja inn myndir hjá mér sem fyrst, frá þessari frábæru ferð vestur :)

ES: Ég ætla að giska á að þau Inga Rún og Bragi muni eignast stelpu 6. janúar og mun hún verða 13 merkur og 51 cm................................
alltaf gaman að giska........................

02 January 2009

Flateyrin mín svo falleg og fín :)

Það er hreint yndislegt að vera hér á Flateyrinni minni :)
Það er náttúrulega aldrei neitt til í þessari sjoppu frekar en fyrri daginn......allavegana ekki það sem mig vantar!!! En svona er þetta bara :)

Ég er að sjálfsögðu búin að fara oft upp í kirkjugarð til hennar Sifjar minnar og kveikja á kertum og bara aðeins til að sitja þar.

Sár varð ég í eitt skiptið er ég kom til hennar og sá að það var búið að skrúfa eina peruna úr ljósakrossinum hjá henni og lá peran í grasinu rétt hjá!!! Ég setti hana að sjálfsögðu aftur í og kveiknaði á þeim perum sem ljósið hafði farið af!!!! Vona að þetta verði ekki aftur gert :)

Gamlárskvöld var meiri háttar :)
Við borðuðum góðan mat hjá þeim hjónum Gullu og Eiríki ásamt sonum þeirra, tengda dætrum og barnabörnum :)

Fórum síðan í blysförina og finnst mér það alltaf jafn flott þegar ljósið er tekið af ljósastaurunum á meðan blysför stendur :)
Flugeldasýningin og brennan voru flott :)
Aldrei eins margt fólk í göngunni og núna....held ég :)

Af brennu á Grundarstíg 2 og horft á skaupið.....sem mér fannst ekkert sérlega skemmtilegt....en margir aðrir skemmtu sér yfir því og er það gott :)

Fram eftir kveldi var drukkið og borðað og síðan skotið upp á miðnætti og held ég að þeir Pétur, Eiríkur og Auðunn Gunnar hafi algjörlega misst sig í flugeldunum núna :)

Allir fóru síðan í Vagninn sem var mikið fjör :)
Við BÁPan reyndar löbbuðum heim saman seint um kvöld og slepptum Vagninum!!!

Margrétin búin að vera lasin frá því hún kom vestur og er það helvíti fúlt!!!

Í gær mættu svo öll börn, tengdabörn og barnabörn hennar mömmu til hennar í mat :) Já sko við sem erum hér!!!!
Gugga mætti með afgangs sprengjurnar hans Halla og Pétur náði í afgangs terturnar sínar og var haldið áfram að sprengja eftir matinn :)
Já það er mikið fjör og mikið grín hér.......og já mig eiginlega langar að flytja hingað aftur!!!!!

Helgi minn fór suður í dag og svo út á sjó!!!
Georg Rúnar minn kom til landsins aftur í gær og út á sjó líka í dag!!!

BÁPan sést varla það er svo mikið fjör hjá henni :) Hún er bara úti allan daginn í leikjum með krökkunum :)

MAM mín setti inn jólamyndirnar í myndaalbúmið ef ykkur langar að kíkja :)
Myndir héðan koma seinna :)
Eigið góðan dag og já:

GLEÐILEGT NÝTT ÁR KÆRU VINIR :)